„Það er betra að reyna hlutina og mistakast en reyna þá alls ekki.“


Teresa Cobb er ein fjölmargra sem hafa heillast af Vestfjörðum. Hún er grafískur hönnuður frá bænum Dorset sem liggur við suðurströnd Englands. Eftir að hafa rekið eigið fyrirtæki í grafískri hönnun í um 10 ár var hún orðin þreytt á að sitja daginn út og inn fyrir framan tölvuna og ákvað að breyta um umhverfi og flytja til Þingeyrar. „Ég hef alltaf verið í fastri vinnu síðan ég lauk háskólanámi. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að flytja hingað til Þingeyrar og breyta algjörlega til, yfirgefa þennan ferkantaða heim og vera opin fyrir nýrri reynslu og upplifunum.“

Ævintýrið hófst reyndar fyrir um níu árum þegar hún fór í siglingu frá Ísafirði með Aurora ferðum til Grænlands. Ferðin hafði svo mikil áhrif á hana að hún fann til djúpstæðrar löngunar til að kynnast þessu landsvæði betur. Hún ákvað því að hafa samband við fyrirtækið og kanna möguleika á sjálfboðaliðastörfum. Þar með hófst ævintýrið, en hún hefur siglt með fyrirtækinu til Grænlands síðustu níu sumur. „Fyrir mér eru þetta raunverulegar óbyggðir þar sem ég kemst í burtu frá öllu. Á Grænlandi getur þú fundið staði þar sem enginn hefur verið og fólkið er einstakt. Að búa á Grænlandi er erfiðara en víðast annarsstaðar, þar er t.d. ekki rennandi vatn í húsunum svo að fólk þarf enn að sækja vatn í brunna.“Hún segir samskiptin við viðskiptavinina sem koma í ferðirnar einnig mjög gefandi. „Að sjá hvernig þeir bregðast við umhverfinu og fá snert af hrifningu þeirra, ég fell fyrir öllu saman aftur alveg uppá nýtt.“

Á síðasta ári komst hún í tæri við bresk hjón sem starfa á Gænlandi yfir vetrarmánuðina en heimsækja Bretland á sumrin. Hún hóf að vinna í sjálfboðaliðastörfum fyrir þau líka og hefur þar með lengt dvöl sína á Grænlandi ár hvert til muna. Það sem felst í sjálfboðaliðastörfum hennar eru meðal annar hefðbundin heimilisstörf s.s. að elda, þrífa og baka, en hún kemst líka til að gera aðra hluti líkt og fara í hundasleðaferðir og annað í þeim dúr. „Núna er skíðatíminn og þá koma ferðamenn frá öllum heimshornum á skíði.”

Á þessum ferðum sínum til Grænlands kynntist hún Íslandi líka betur þar sem hún eyddi ávallt nokrum dögum fyrir og eftir ferðirnar. Fyrir ári síðan ákvað hún að óska eftir fimm vikna þátttöku í vetrar listamannadvöl á Þingeyri á vegum Simbahallarinnar og komst þannig betri kynni við Þingeyri en skemmst er frá því að segja að hún heillaðist gjörsamlega af staðnum og fólkinu. Á Þingeyri getur hún get sameinað þessa tvo heima, heim frelsis og ævintýra og svo heim dagvinnu og reikninga. Á Grænlandi er nettenging stopul svo erfitt getur reynst að vinna þar eða tala við fjölskyldu og ættingja í gegnum tölvuna, en hér á Þingeyri er fullkomið að vera. Stutt í báðar áttir, bæði til fjölskyldunnar og til ævintýranna á Grænlandi.

„Ég vil verða stærri hluti af samfélaginu hér á Þingeyri, ég er alltaf að hlusta á æfingar og reyna að læra tungumálið. Mér finnst það mjög mikilvægt og veit að tungumálið veitir betra samfélagslegt aðgengi.“ Teresa horfir til þess að kaupa sér hús hér á Þingeyri, „fyrir mér getur heimili verið margt, en ég þarf að hafa einhvern grunnpunkt. Það er bara hluti af því hvernig ég er en opnar líka fyrir betri möguleika á að bjóða vinum og fjölskyldu í heimsóknir.

Hér á Þingeyri segist Teresa fá tækifæri til að gera hluti sem hún hefur aldrei gert áður. „Ég vildi ekki koma hingað og halda bara áfram að gera það sama og ég gerði í Bretlandi. Mig langaði að upplifa aðra hluti. Í fyrra keyrði ég hér um á traktor og gaf hestunum. Ég eyddi líka helium degi í að skera niður rabarbara til sultugerðar. Hér eru margskonar tækifæri fyrir mig til upplifana og það fyllir mig andagift.“ Teresa segir að starfa á þennan hátt, á eigin vegum til móts við sjálfboðaliðastörf skapi öðruvísi vinnuálag en að vinna aðeins fyrir peninga. Að vinna fyrir viðskiptavini og peninga skapar ákveðið andrúmsloft og álag. Að starfa á þennan hátt veitir meira frelsi. Með þessum lífsmáta nær hún að halda góðu jafnvægi milli innkomu og frelsis en hún segir að þessi lífsmáti sé næstum að verða að verkefni í sjálfu sér.

Teresa hefur búið víða um heim en hún hefur m.a. búið í fjögur ár í Hong Kong og í tvö ár í Kanada. Henni finnst norðlægari lönd hafa annað svipmót sem hún tengir betur við. „Eftir því sem þú ferð norðar, nær norðurpólnum verður birtan öðruvísi. Veðrið er erfiðara að klást við, óvæntara. Ég elska það. Ég elska þá staðreynd að veðrið er villt. Það er aldrei leiðinlegt, alltaf spennandi að vita ekki hvað kemur næst. Maður nær miklu betri tengingu við náttúruna en á flestum öðrum stöðum sem ég hef komið til.“

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *