Sönn ástríða

Vera má að ýmsir á Þingeyri hafi séð líffræðinginn og listakonuna Megan Perra á sveimi um svæðið síðustu vikur, en hún hefur dvalið við störf í listamannadvöl á vegum Simbahallarinnar, Westfjords Residency. Þann tíma sem hún hefur verið hér hefur hún sannarlega ekki legið á liði sínu. Margir sóttu meðal annars málþing um heimskautarefinn sem hún hélt í Blábankanum um miðjan mars og nú síðustu daga hefur stór refur smám saman verið að koma sér fyrir á gafli Bjarnabúðar, en þar hefur Megan einmitt verið að störfum við að mála veglega veggmynd.

 

Afdrifarík dvöl á Íslandi

Megan er fædd og uppalin í Portland í Oregon, með tvöfaldan ríkisborgararétt, Bandarískan og Kanadískan. Eftir framhaldsskóla flutti Megan til Brittish Colombia í Kanada þar sem hún lagði stund á líffræði. Árið 2016 lá leið Megan til Skagastrandar þar sem hún sótti listamannadvöl í þrjá kalda vetrarmánuði. Á Skagaströnd átti líf Megan eftir að taka nokkuð skarpa stefnu í þá átt sem á hug hennar og hjarta í dag. Í rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hitti Megan vísindamenn og rannsakendur sem rannsaka heimskautarefinn á Íslandi og má segja að hún hafi gjörsamlega heillast af viðfangsefninu. Það eru ekki einstaka rannsóknir á sviði líffræði sem heilla hana mest heldur málaflokkurinn í heild sinni, allt frá líffræðirannsóknum til félagsvísindatengdra málefna á borð við refaveiðar á Íslandi í heildrænu samhengi, og dýnamískt samband refaveiðimanna og refa.

 

Myndir sem segja sögu

Eftir hina afdrifaríku dvöl á Íslandi flutti Megan til Montreal til að bæta við sig námi, en þar lærði hún í meistaranámi sjónræna fjölmiðlafræði (visual journalism). Námið býður uppá einstaklega áhugaverða nálgun á miðlun þar sem unnið er á skapandi hátt með að sameina orð og myndir við miðlun upplýsinga til almennings. Megan segist kunna þessari nálgun ákaflega vel þar sem henni finnist oft skorta betri miðlunarmöguleika á vísindatengdu efni til almennings þar sem heimur vísindanna sé oft aftengdur almenningi sökum sérhæfðs tungutaks og hugtaka. „Miðlun á vísindatengduefni til almennings er svolítill flöskuháls, það er ógerningur að koma öllu til skila, en það sem kemur fram verður að vera rétt og því er ábyrgð blaðamanna mikil að kynna sér efnið vel. Það er hægt að eyðileggja svo mikið ef ekki er farið rétt með.“

 

Heimskautarefurinn í máli og myndum

Megan er nú á Ísalandi í annað sinn og hefur að þessu sinni dvalið á Vestfjörðum. Ástæða komu hennar er að sjálfsögðu tengd heimskautarefnum en hún hefur verið að vinna að því að nálgast viðfangsefnið frá ólíkum miðlum. Nýlega dvaldi hún í Bolungarvík þar sem hún gerði útvarpsþátt um þrífættan ref sem refaskyttur á svæðinu höfðu lengi verið að eltast við en virtist ávallt takast að renna þeim úr greipum. Þar fór Megan í vettvangsferð með refaskyttunni sem tókst að leggja þann þrífætta af velli, og kynnti sér m.a. hvernig beitu-refaskyttur vinna. Útvarpsþáttinn má nálgast hér.

Megan hefur einnig farið í vettvangsferðir á Hornstrandir og kynnt sér ferðamennsku tengdri ljósmyndun á heimskautarefnum, sem er ákaflega vinæl á því svæði. Megan segir þar einn ákveðinn ref hafa gert sig heimavanan og sæki grimmt í matargjafirnar sem lagðar eru út til að laða að refi fyrir ljósmyndarana. „Það er fyndið að fletta í gegnum myndir á netinu af heimskautarefum og sjá oft þennan ákveðna ref. Hann þekkist svo vel af því að hann er svolítið tileygur. Stundum kemur hann einn, borðar yfir sig og liggur svo afvelta og lætur taka myndir af sér“ segir Megan og hlær.

 

 

Refur í risastærð

Megan er afar hæfileikaríkur myndlistamaður en það hefur veitt henni aukið frelsi til fara óhefðbundnar leiðir í sjónrænni fjölmiðlun. „Myndlistin hefur alltaf verið auka hjá mér. Myndir segja sögu og mér finnst spennandi að nota myndlistina til að miðla vísindum og segja sögur úr náttúrunni.“ Megan segir að við það að skapa eitthvað sem er aðlaðandi fyrir augað myndist ákveðin forvitni og sérstök tenging við áhorfandann sem ekki fæst eins auðveldlega í hefðbundinni blaðamennsku. Efniviður Megan tengist áhugasviði hennar beint en hún vinnur mikið með náttúruna og náttúrumyndir. „Mér finnst gaman að vera úti og skapa eftirlíkingar af heiminum. Vísindi og listir eru svipuð að því leiti að þar er verið að skoða heiminn og reyna að gera hann á einhvern hátt skiljanlegri.“

Megan hefur unnið víða að ólíkum skapandi verkefnum, en hún hefur unnið sem sjálfstætt starfandi lista- og vísindamaður við skrif á blaða- og vísindagreinum, og unnið fjölda verkefna tengdum grafískri hönnun og myndlist. Undanfarið hefur hún unnið að því að mála veggmynd á myndarlegan gafl Bjarnabúðar í hjarta Þingeyrar og blasir hann við öllum þeim sem eiga leið um, hvort heldur sem er inn eða út úr bænum. Aðspurð hvort veggmyndin hafi fyrir henni meira listrænt eða vísindalegt gildi segir hún að verk sem þetta geti að sjálfsögðu verið hvort tveggja, en fyrir henni sé verkefnið framar öllu frásagnarlegs eðlis, myndin segi áhorfandanum litla sögu úr náttúrunni en á myndinni má sjá ref í flæðarmálinu takast á við æðarfugl um fæði.

 

 

Ekki alveg búin enn

Megan er væntanleg aftur til Íslands seinna á þessu ári því hún er með annað og stærra verkefni á prjónunum. Hún hefur verið að vinna að heimildarmynd um heimskautarefinn á Íslandi og er verkefnið komið vel á veg. Til að byrja með snérist hugmyndin að mestu um þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á kvikasilfurmengun í heimskautarefnum, en verkefnið vatt fljótlega upp á sig og hefur orðið umfangsmeira eftir því sem hún hefur eytt meiri tíma í samskiptum við refaskyttur, kynnt sér refaveiðar og annað tengt málefninu hér á Íslandi. Hún segir að þegar heimildarmyndin verði tilbúin muni hún hafa tekist á við viðfangsefnið á nokkuð heildstæðan hátt með rituðum greinum á mismunandi vettvangi, í útvarpi og sjónvarpi, og inn á milli með stórum og smáum listaverkum.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *