Skapandi fólksfækkun: Heimsókn á Þingeyri frá fjallahéruðum Japan

Yoichi Dan, hugbúnaðarverkfræðingur sem starfar í fjallaþorpinu Kamiyama. Mynd frá Bloomberg.

Dreyfðar byggðir Japans glýma við hækkandi meðalaldur og fólksflótta til borganna. Þessvegna hefur smábærinn Kamiyama og önnur þorp í fjallahéraðinu Tokushima vakið athygli.

Á undanförnum árum hafa fjöldi tæknifyrirtækja stofnað útibú í héraðinu, og boðið ungum starfsmönnum að flytja úr amstri borgarinnar og njóta þess sem smærra samfélag og nálægð við náttúruna hefur upp á að bjóða.

Bærinn Kamiyama, sem byggði tilveru sína á skógrækt hafði misst stóran hlut af íbúum og hlutfall eldri borgara orðið mjög hátt. Með innkomu nýbúa úr borgunum færðist annarskonar líf í staðinn, og með því veitingastaðir og önnur þjónusta af tagi sem ekki hafði sést áður.

Þessi þróun gerðist ekki á einni nóttu, og má m.a. rekja til samtakanna Grænadals. Eitt af þeim aðgerðum sem samtökin réðist í var gestavinnustofa fyrir listafólk sem hófst fyrir tuttugu árum. Samtökin, sem eru undir forystu manns að nafni Ōminami hafa farið sínar eigin leiðir í byggðamálum, sem um margt hafa verið þvert á hefðbundar japanskar aðferðir sem ganga út á skattafslætti og sposslur til fyrirtækja sem ráðast í mannfrekan iðnað. Árangurinn hefur vakið athygli víða bæði innan og utan Japan og má m.a. lesa ýtarlega um hér en hraðsoðnari umfjöllun birtist m.a. hjá Bloomberg fréttastofunni. Til marks um þessa athygli var bærinn Kamiyama í öðru sæti yfir mestu frumkvöðlaborgir Japan samkvæmt tímaritinu Forbes árið 2017.

Skapandi fólksfækkun

Stefna Ōminami hefur verið á að vinna með þessa fólksfækkun sem orðinn hlut, en einbeitta sér fremur að því að búa til sjálfbært samfélag þrátt fyrir þann veruleika. Ōminami hefur lýst stefnunni um skapandi fólksfækkun sem svo:

“Sætta sig við raunveruleikan um fólksfækkun. Að reyna ekki að breyta henni hvað varðar hausatalningu heldur í innihaldi. Að stefna að staðbundnu samfélagi sem sé í jafnvægi, sjálfbært og minna háð landbúnaði með því að laða að ungt skapandi og hæfileikaríkt fólk að utan til þess að skapa heilbrigða samsetningu samfélagsins; með því að nýta tækni-innviðana hér og með því að auka samkeppnishæfni okkar sem stað fyrir atvinnulíf með því að þróa nýjar aðferðir sem það getur unnið eftir”.

Heimsókn á Þingeyri

Á Þingeyri hefur fjöldi skapandi fólks dvalið í gegnum gestavinnustofur Westfjords residency Simbahallarinnar.  Einn þeirra er arktítektinn Yasuaki Tanago sem síðar hefur dvalið oft í þorpinu og vinnur nú verkefni tengd byggðarlaginu. Í gegnum hann hafa tengsl skapast milli bæjana Þingeyrar og Kamiyama.

Þann 1. september n.k. er von á áðurnefndum Ōminami ásamt fjórum öðrum forsprökkum Grænadalshreyfingarinnar til Þingeyrar. Þeir munu tala á vinnustofu sem haldin verður í Blábankanum og miðla reynslu sinni og sjónarmiðum. Auk þess munu þrír japanskir listamenn sem áður hafa dvalið í vinnustofu á Þingeyri halda sýningar og námskeið, svo úr því verður japönsk helgi fyrir alla aldurshópa.

Nánari upplýsingar um vinnustofuna veitir Wouter Van Hoeymissen (simbahollin@gmail.com) en dagskrá helgarinnar verður auglýst betur síðar.

Eitt svar við “Skapandi fólksfækkun: Heimsókn á Þingeyri frá fjallahéruðum Japan”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *