Samtakamátturinn

Samfélögin mótast af þeim er þau byggja. Þó utanaðkomandi þættir líkt og umhverfið og sagan komi við sögu ber fólkið helstan hróðurinn, sem með elju og þrautsegju, samtakamætti, hugmyndaauðgi og jákvæðu hugarfari mótar samfélagið og setur svip sinn á það með einum eða öðrum hætti.

Merki um þetta kraftmiklafólk sjáum við hvarvetna en í fljót bragði langar mig að nefna allar þær samfélags- og listahátíðir af ýmsu tagi hér í nágreni Þingeyrar og víðar á Vestfjörðum sem hafa margar hverjar hafa byrjað smátt en undið upp á sig með ári hverju og teljast nú rótgrónar og ómissandi þáttur samfélagsins. Slíkur hróður berst víða svo eftirsótt verður fyrir fólk frá öðrum landshornum að gera sér ferð til að taka þátt og njóta en ekki síður til að fá innblástur.

Gísli á Uppsölum-Elfar Logi Hannesson

Sandkastalakeppnin í Holtsfjöru er gott dæmi um litla en kraftmikla hátíð þar sem leik- og sköpunargleði er í forgrunni en keppnin hefur verið haldin í yfir 20 ár. Gamanmyndahátíðin á Flateyri sem haldin verður í annað sinn nú á dögunum er metnaðarfull og frumleg. Hátíðin Act Alone sem haldin hefur verið á Suðureyri síðustu 14 ár er annað gott dæmi um einstaka eljusemi og þrautsegju, en Elfar Logi Hannesson leikari og stjórnandi hátíðarinnar hefur borið hana á herðum sér og í samstarfi við annað gott fólk gert hátíðina að því umfangi sem hún er í dag.

Að vera skapandi er ekki á höndum fárra. Allar manneskjur eru skapandi á sinn hátt, hvort það sé með höndum, hugviti eða hjarta. Kannski þarf svolítið hugrekki til að stíga fyrsta skrefið að því að leysa sköpunarkraftinn úr læðingi og finna hugmyndunum farveg. Eitt af því sem Blábankinn, nýsköpunar og samfélagsmiðstöðin á Þingeyri, leggur áherslu á er að veita rými til að hugsa, skapa og finna aðra í frjóu umhverfi.

Enginn er eyland, sjáum hvert samtakamátturinn ber okkur og sköpum eitthvað saman.

-Arnhildur Lilý Karlsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *