Listin í hinu smáa – Hugleiðingar

Hversdagslegur veruleiki vestfjarða að vetri til: Snjó kyngir niður. Og kyngir niður. Og kyngir niður. (Reyndar skilst mér að síðastliðinn vetur hafi verið snjólaus hér á Þingeyri fram að aðfangadegi en þá hafi snjóað svo mikið að fólk hafi verið innlyksa í fjóra daga á eftir.) Verandi svo nýlega aðflutt er þetta snjóflæmi ákveðið nýnæmi fyrir mér. Snjórinn er líka öðruvísi hér en fyrir sunnan. Þessa ályktun dreg ég fullkomlega af tilfinningu frekar en röklegum staðreyndum. Fyrir sunnan snjóar en snjórinn helst varla lengi áður en hann breytist í grátt slabb sem ýmist frystir eða bætir í eftir því hvoru megi við 0° hitastigið sveiflast. Snjórinn hér á Þingeyri er alls ekki þannig, hann er yndislega hvítur og léttur og kyndir undir gamla gönguskíðadrauma frá barnæsku.

Annað sem ég hef velt fyrir mér er snjómoksturinn, sem eins og gefur að skilja er mikið þarfaþing. Hinir ötulu snjómokstursmenn á gröfunum stóru þeysast um allan daginn og færa til snjóinn smátt og smátt þar til göturnar eru svo gott sem auðar, gangstéttar mokaðar líka og allt þetta magn af snjó snyrtilega komið fyrir á réttum stöðum. En þá velti ég fyrir mér, hvernig maður færir til snjó svo vel sé? Ég geri ráð fyrir að það þurfi ákveðna útsjónasemi við snjómokstur. Þar þýðir lítið að skvetta til höndum og skipuleggja þarf moksturinn svo takist vel til. Hér á Þingeyri hef ég séð að snjónum er ekki bara rutt til hliðar líkt og víða er gert (ég man vel eftir þrautinni við að koma barnavagni yfir harða snjóhrauka sem fylltu gangstéttina nokkra vetur fyrir utan heimili mitt fyrir sunnan). Snjónum hér á Þingeyri er raunverulega mokað  og hann settur á staði þar sem minnst fer fyrir honum. Hér er mokað vel út í sem flest horn og ég get vel trúað því að útskotin þar sem moka þarf geta orðið allt að því óteljandi.

Ég fyllist aðdáun yfir fimi þessara manna með stóru vinnutækin og fínvinnan sem þeir vinna með hinum grófgerðu vinnutækjum er einstök. Takk fyrir að moka snjóinn svona listlega vel!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *