„Já ég smíðaði það bara“

Í hljóðfærasafni Jóns á Þingeyri kennir ýmissa grasa, en safnið geymir yfir fimmta tug hljóðfæra af ólíkum uppruna. Mörg þeirra hljóðfæra sem þar gefur að líta eru harla óhefðbundin og fágæt. Safnið á rætur sínar á heimili Jóns en í bílskúrnum er verkstæði hans og lítið sýningarrými fyrir drög að því safni sem hann nú státar af. Hinn sívaxandi safnkostur hefur fyrir löngu sprengt utan af sér bílskúrinn og er safnið nú staðsett í gamla Verslunarfélagshúsinu í hjarta bæjarins.

Jón Sigurðsson stofnandi hljóðfærasafnsins er, eins og gefur að skilja, mikill áhugamaður um tónlist. Hann spilar sjálfur á gítar og bassa en hefur einnig í gegnum tíðina verið óhræddur við að prófa sig áfram með ólík hljóðfæri því hann ekki síður mikill áhugamaður um óvenjuleg og spennandi hljóðfæri.


Mörg þeirra hljóðfæra sem prýða safnkost Jóns hefur hann smíðað sjálfur, en hann er ekki aðeins tónelskur heldur er hann einnig völundur í höndum. Hugmyndina að því að smíða hljóðfæri fékk hann með samstarfsmanni sínum við Grunnskólann á Þingeyri, tónlistarkennara frá Eystlandi, eftir að hafa rætt um þjóðlagatónlist og íslenska langspilið. Íslenska langspilið er bogastrokið strengjahljóðfæri en fyrstu heimildir um það má finna frá 18. öld. Afar fáir smíða slíka gripi og í viðleitni til að eignast eitt slíkt bað samkennari Jóns hann um að spreyta sig á því. Útfærsla Jóns og smíði langspilsins tókst einkar vel og varð hvati að frekari hljóðfærasmíðum.  

Mikil heimildarvinna liggur að baki þeim hljóðfærum sem Jón hefur smíðað. Ýmist smíðar hann eftir mynd og lýsingum af hljóðfærinu og kallar hann það eftirlíkingar, en af mörgum hljóðfærum eru hvorki til myndir né nákvæmar lýsingar og leggur hann þá til sína útfærslu af hljóðfærinu. Hljóðfærin sem finna má á safninu eru frá öllum heimshornum s.s. íslensk fiðla, Hjaltlandseyja gígja, didgeridoo blásturshljóðfæri að hætti ástralskra frumbyggja, ýmsar gerðir af flautum, strengjahljóðfærum og ásláttarhljóðfærum, en utan þeirra hljóðfæra sem Jón hefur smíðað sjálfur má einnig finna fleiri hljóðfæri í hans eigu sem og önnur sem hann hefur fengið að láni og eru til sýnis á safninu.

Safnið er opið flestalla daga yfir sumartímann en þegar haustar hverfur Jón aftur til vinnu í Grunnskóla Þingeyrar. Meðfram því smíðar hann langspil eftir pöntunum og selur hérlendis jafnt sem erlendis. Frekari upplýsingar um hljóðfærasmíði og safn Jóns má finna á heimasíðu hans: http://langspil.weebly.com.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *