Hversdagsleg sköpun

Hveiti, sykur, lyftiduft, mjólk, egg, smjör, vanilludropar…

Það lætur kannski ekki mikið yfir sér að hræra í vöffludeig. Hvað þá baksturinn sjálfur, enda þarf ekki mikla kunnáttu til að baka vöfflur. Þrátt fyrir þennan hversdagslega einfaldleika eru vöfflur nokkuð merkilegar.

Vöfflur, með tilbrigðum við fyrrgreind hráefni, eru hluti af matarmenningu fjölmargra landa. Saga vöfflunnar í þeirri mynd sem við þekkjum hana í dag má rekja til 19. aldar, þó þróun hennar nái allt aftur til miðalda. Til eru heimildir um keimlíkar vöffluuppskriftir frá Frakklandi, Hollandi, Belgíu og Þýskalandi, þó sú belgíska orðið hlutskörpust og sé þeirra þekktust í dag.

Skandinavískar vöfflur eru ólíkar að formi og innihaldi. Þær eru, líkt og við þekkjum, þynnri og gjarnan skipt niður í fimm hjartalaga „lauf“. Fyrir utan formið eru miðevrópskar og skandinavískar vöfflur ólíkar að því leyti að þær skandinavísku nota aðeins lyftiduft en ekki ger. Ég veit ekki með þig en fyrir mér er belgíska vafflan ljúffeng og spennandi, en á sama tíma er gerbragðið svolítið framandi. Hjartalaga lauf skandinavísku vöfflunnar standa mér nærri og minna mig á barnæsku mína og ylja mér um hjartaræturnar.

Vafflan stendur fyrir hversdagsleikan, hún er hversdagslegur matur. Við klæðum okkur ekki upp fyrir vöfflur heldur njótum þeirra án tilgerðar. Við baksturinn fyllist húsið bökunarilmi svo gestir og gangandi fá vatn í munninn. Það besta við vöfflur er að njóta þeirra með öðrum. Því má segja að vöfflur tengi saman fólk og er það einmitt það sem við höfum hér í samfélaginu okkar á Þingeyri. Við búum í litlu fjölmenningarsamfélagi þar sem vöfflur af hvaða uppruna sem er tengja fólk saman. Vöfflur í heimahúsum eða á kaffihúsum, gerðar til að njóta í samvistum við aðra. Hin hversdagslega sköpun vöfflunnar er töfrum líkust.

-Arnhildur Lilý Karlsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *