Fjöruperlur

Kristín Þórunn Helgadóttir er handverkskona frá Alviðru í Dýrafirði. Bærinn liggur við sjávarsíðuna og er fjaran, hinn heillandi heimur, síbreytileg og gjöful, rækilega samtvinnuð uppvaxtarárum hennar. Frá barnæsku hefur Kristín stöðugt verið að teikna og skapa í huganum og hafa sumar hugmyndanna ratað í listaverk. Kristín sækir enn í dag mikinn innblástur og ró í fjöruna en hún vinnur skartgripi og listaverk úr efnivið sem hún finnur á göngum sínum þar.

Kristín hefur allt frá árinu 1990 hoggið út styttur og skúlptúra í rekavið. Hún vinnur mest með stóra drumba og hefur sótt ýmis námskeið í beitingu verkfæra við ólíka skurðtækni. Það má segja að Kristín sé svolítil tækjadellu kona en áhuginn leynir sér ekki þegar hún ræðir um þau tæki og tól sem hún beitir við útskurðinn af mikilli lipurð. Kristín hefur lengst af unnið með útskurð og viðarskúlptúra og prýða margar útskornar styttur eftir hana heimili og stofnanir, en þar má meðal annars nefna tvær tignarlegar styttur sem standa við Gíslastaði í Haukadal í Dýrafirði.

Eftir að hafa dáðst um langa hríð að hinu náttúrulega formi klóþangsins hófKristín að vinna þaraperlur úr þurrkuðu og lifandi klóþangi. „Ég hef alltaf dáðst að þaranum. Mér finnst hann svo fallegur og ég var alltaf að hugsa um hvað væri hægt að gera úr honum þannig að hann héldi sínu náttúrulega útliti sem mest.“ Fyrsta atlaga að klóþanginu var í raun hugsuð sem skart fyrir Kristínu sjálfa, pússuð þaraperla á leðurreim, en skartið vakti strax mikla athygli sem kallaði á frekari útfærslur og síðar framleiðslu á þeim skartgripum sem bera nafnið Fjöruperlur, en í þeirri línu má sjá perlur unnar úr lifandi klóþangi sem eru fagurgrænar lit og svo svartar perlur sem unnar eru úr þurrkuðu klóþangi. Hver perla er einstök sem gerir skartið afar aðlaðandi.

Kristín hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir Fjöruperlurnar en hún var meðal annars kosin Handverksmaður ársins á sýningu í Hrafnagili og hlaut frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar árið 2014. Einnig hefur mikið verið fjallað um verk hennar í ýmsum fjölmiðlum hérlendis sem og erlendis og hafa margir þjóðþekktir einstaklingar, líkt og forsetafrú íslenska lýðveldisins, kosið að bera skartgripi Kristínar á opinberum vettvangi.

Meðfram framleiðslu á Fjöruperlum og viðarútskurði heldur Kristín áfram að vinna með mismunandi efnivið en það sem hún m.a. vinnur að þessa dagana eru litlir tálgaðir jólasveinar sem hún vinnur úr ólíkum við sem henni áskotnast sem og litlar útskornar tröllastyttur með stríðu hári úr ullarlögðum.

Frekari upplýsingar um Kristínu og handverk hennar má finna á heimasíðu hennar hér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *