Vinnustofa í heimildarmyndagerð

Lumar þú á heimildamynd sem hefur beðið of lengi óklippt á harða disknum? Þá er þetta námskeið tilvalið fyrir þig. 

Blábankinn, í samstarfi við Klapp, býður þér að taka þátt í fjögurra daga námskeiði í heimildamyndagerð sem stýrt er af þaulreyndum kvikmyndagerðarkonum frá Norður-Noregi. 

Þær munu bæði sýna eigin verk til að veita verkefnum ykkar innblástur auk þess sem þú munt öðlast innsýn í frásagnarlist, dramatúrgíu og heimildamyndaframleiðslu í gegnum vinnustofur. Síðast en ekki síst mun gefast tími til að setjast niður og ræða og vinna þitt eigið verkefni undir leiðsögn reynds heimildamyndagerðarfólks. 

Á námskeiðinu er pláss fyrir fimm þátttakendur. Á meðan þessu fjögurra daga námskeiði stendur munu þú og kennararnir finna leiðir til að draga áhorfendann að sögunni, ná fram nánd við sögupersónurnar og greina hvernig hægt er að koma söguþræðinum á framfæri með ólíkum frásagnaraðferðum. Námskeiðið verður blanda af vinnustofum og einstaklingstímum með kennara. Í lok námskeiðs er stefnt að því að hver og einn þátttakandi sé kominn með grófklippta útgáfu af myndinni sinni til að sýna kennurunum/leiðbeinendunum og öðrum þátttakendum. 

Fyrir þá sem ekki hafa undir höndum kvikmyndaverkefni til að vinna í er boðið upp á tíu áheyrnarpláss fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með námskeiðinu, ásamt því að taka þátt í hópaumræðum og læra um heimildamyndagerð. 

Dagsetningar: 30. janúar – 3. febrúar 2019

Umsóknir

Opið er fyrir umsóknir til 20. desember 2018. Vinsamlegast sendið umsóknir í tövupósti þar sem fram kemur hver þú ert og hvaða verkefni þú hyggst vinna að á námskeðinu. Við munum vera í sambandi og veita fimm völdum þátttakendum staðfestingu fyrir 31. desember. 

Hámark 5 þátttakendur. Verð fyrir einn heimildagerðarmann með verkefni: 59.000 kr. 

Innifalið: 

  • Þátttaka í námskeiðinu og vinnustofum í frásagnarlist og dramaturgíu
  • Persónuleg aðstoð við eigið verkefni
  • Gisting
  • Fjórir hádegisverðir og þrír kvöldverðir á Simbahöllinni 
  • Þátttakendur verða sóttir á Ísafjarðarflugvöll

Hámark 10 áheyrendur. Verð fyrir áheyranda: 29.000 kr.

Innifalið: 

  • Þátttaka á námskeiði og í vinnustofum í frásagnarlist og dramaturgíu
  • Gisting
  • Fjórir hádegisverðir og þrír kvöldverðir á Simbahöllinni 

Kennarar

Trude Berge Ottersen (Tromso, Noregi), er menntuð í sjónrænni mannfræði og leggur áherslu á að glæða myndir sínar lífi með hjarta, skopskyni og mannsandanum. Undanfarin ár hefur Trude leikstýrt og framleitt heimildamyndir, þar á meðal myndin „Sealers: One Last Hunt“ (2017) sem var sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim.

Ingrid Dokka er rithöfundur frá Kongsberg í Noregi. Hún starfar sem ráðgjafi og framleiðandi hjá Norður Norska Kvikmyndasjóðnum, er með MA gráðu í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá Háskólanum í Osló og hefur leikstýrt fjölda heimildarmynda og stuttmynda. Hún hefur unnið innan norska kvikmyndageirans síðan árið 1993.

Blábankinn

Blábankinn er þjónustu- og nýsköpunarmiðstöð sem heldur utanum ýmsa þjónustuþætti fyrir samfélagið í Dýrafirði. Blábankinn veitir meðal annars bankaþjónustu fyrir Landsbankann og tengingu við Ísafjarðarbæ og Verk Vest. Einnig býður Blábankinn uppá aðstöðu hvort heldur sem er fyrir samveru, lestur, sköpun eða vinnu.

Blábankinn er opinn fyrir samstarfi við stofnanir, fyrirtæki eða lögaðila um bætta þjónustu við íbúa Dýrafjarðar.

Vinsamlegast sendið tölvupóst fyrir skráningu eða fyrirspurnir.

Vinnustofan er styrkt af Norður-norska Kvikmyndasjóðnum og Nordisk Kultur Kontakt.