Dagskrá Blábankans 2019

Þingeyri er tilvalinn staður til að koma og vinna, læra og fá innblástur – frá öðru fólki sem í Blábankanum er og samfélaginu í Dýrafirði. Á fyrrihluta ársins 2019 bjóðum við upp á þrjú námskeið og vinnustofur.

1. Vinnustofa í Heimildarmyndagerð, 30. janúar til 3. febrúar

Lumar þú á heimildamynd sem hefur beðið of lengi óklippt á harða disknum? Þá er þetta námskeið tilvalið fyrir þig.

Blábankinn, í samstarfi við Klapp, býður þér að taka þátt í fjögurra daga námskeiði í heimildamyndagerð sem stýrt er af þaulreyndum kvikmyndagerðarkonum frá Norður-Noregi.
Þær munu bæði sýna eigin verk til að veita verkefnum ykkar innblástur auk þess sem þú munt öðlast innsýn í frásagnarlist, dramatúrgíu og heimildamyndaframleiðslu í gegnum vinnustofur. Síðast en ekki síst mun gefast tími til að setjast niður og ræða og vinna þitt eigið verkefni undir leiðsögn reynds heimildamyndagerðarfólks.

 

2. Námskeið í Skapandi Skrifum, 28. febrúar til 3. mars

Í samstarfi við Hversdagssafnið á Ísafirði verður haldið fjögurra daga námskeið í Skapandi Skrifum með barna- og unglingabókahöfundinum Jenny Valentine sem hlotið hefur fjölda verðlauna fyrir skrif sín og ljóðskáldinu Emma Beynon. Námskeiðið er hannað til að örva sköpunargáfuna og gefa þátttakendum rými til að skrifa það sem þeir sækjast eftir, óháð reynslu þeirra af skrifum. Þar munu þátttakendur skrifa saman í hvetjandi umhverfi og vera kynnt fyrir ýmsum aðferðum sem koma sköpunarkraftinum á skrið. Þátttakendur munu læra um karaktersköpun, sögusvið, uppbyggingu og söguþráð í gegnum ólíka stíla skáldskapar, æviágripa og ljóðlistar.

3. Blábankahraðallinn

Síðasti nýsköpunarhraðall Blábankans var mjög vel heppnaður svo við munum endurtaka leikinn árið 2019. Tímasetning hraðalsins hefur verið færð til september 2019.

Gefðu þér 10 daga til að einbeitta þér að hugmyndinni þinni eða verkefni á Þingeyri á Vestfjörðum, einu fegursta og friðsælasta svæði Íslands. Þú færð tækifæri til að kynnast öðrum frumkvöðlum og skapandi einstaklingum ásamt leiðbeinendum, og tækifæri til að deila kunnáttu þinni og þekkingu með þeim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *