Blábankinn hlýtur sérstaka viðurkenningu

Blábankinn, samfélagsmiðstöðin á Þingeyri, hlaut á dögunum sérstaka viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri stjórnsýslu. Verðlaun og viðurkenningar voru veittar á ráðstefnunni Nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2018 -„Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“sem haldin var föstudaginn 9. júní 2018 á Grand Hótel í Reykjavík.
Verðlauna- og viðurkenningahafar fyrir Nýsköpun í opinberri þjónustu 2018

Nýsköpunarhraðall í Blábankanum

Blábankinn stóð nýlega fyrir nýsköpunarhraðli á Þingeyri. Þátttakendur voru valdir úr hópi umsækjenda og voru sjö verkefni valin að þessu sinni. Hraðlinum var ætlað að veita þátttakendum tækifæri til að fjarlægja sig áreiti hversdagsins, og fá vinnuaðstöðu, gistingu og félagslegt net í formi annara þátttakenda. Að auki bauð Blábankinn þátttakendum uppá fyrirlestra frá Haraldi Hugosyni, einum stofnanda Genki Instruments og áður verkefnastjóra hjá Icelandic Startups, og Laugu Óskarsdóttur sem er yfir smiðju hjá StartupLab í Osló og meðstofnandi United Influencers & Mesher. Nýsköpunarmiðstöð og FabLab á Ísafirði tóku einnig þátt og veittu Arna Lára Jónsdóttir og Þórarinn Bjartur Breiðfjörð Gunnarsson verkefnastjórar hjá Nýsköpunarmiðstöð þátttakendum aðstoð og stuðning eftir þörfum.

Umsóknaferlið var mjög opið og gátu umsækjendur sótt um þátttöku á afar ólíkum forsendum. Verkefnin sjálf voru mis langt á veg komin og af mismunandi toga. Þátttakendurnir í hraðlinum komu frá Íslandi, Indlandi og Þýskalandi. Meðal þeirra verkefna sem valin voru má nefna vöruþróun á skynörvandi ábreiðu fyrir alzheimer sjúklinga, smáforrit fyrir samnýtingu bílferða, markaðstorg fyrir kaup og sölu á sérfræðiþjónustu, ráðgjafaþjónusta um sjálfbærni o.fl. Þátttakendur dvöldi á Þingeyri í 2-3 vikur og unnu að verkefnum sínum. Hraðallinn var styrktur af Uppbyggingasjóði Fjórðungssambands Vestfjarða.

Lengi býr að fyrstu gerð

Margir eiga gott samband við ömmur sínar og afa og aðrir jafnvel hafa haft tækifæri til að þekkja vel langömmur sínar og langafa, en færri nú til dags hafa beinlínis alist upp í nánu sambýli með þeim. Þessi nánu samskipti kynslóða í gegnum sambúð, sem eitt sinn var eðlilegur hluti tilverunnar, hefur breyst og samskiptin fjarlægst.

„Það voru fjórar kynslóðir í húsinu sem ég bjó í fram til 5 ára, ég átti tvær langömmur og fór mikið með þeim í heimsóknir um sveitina“ segir Hanna Jónsdóttir hönnuður, en hún er fædd og uppalin á Jaðri í Suðursveit. Náin samskipti við eldri kynslóðirnar hefur haft afar mótandi áhrif á Hönnu en hún er elst þriggja systkina. Hún segist alltaf hafa verið mjög tengd fjölskyldu sinni og fann til mikils söknuðar sem barn þegar hún var fjarri þeim. Sem dæmi nefnir hún þegar hún fór með skólanum í ferðalag að Reykjum í Hrútafirði en þá fékk hún svo mikla heimþrá að hún skrifaði afa sínum bréf með dramatískum lýsingum á þeim erfiðu aðstæðum að vera fjarri þeim þá fjóra daga sem skólabúðirnar stóðu yfir. Á gagnfræðiskólaárum sínum stundaði Hanna nám á Höfn í Hornafirði og var þá tíður gestur á elliheimilinu í bænum þar sem hún heimsótti langömmu sína og –afa sem þá höfðu flutt sig úr sveitinni yfir á elliheimilið.

Lesa áfram “Lengi býr að fyrstu gerð”

Framtíð Þingeyrar – Öll vötn til Dýrafjarðar

Verkefnið Öll vötn til Dýrafjarðar tekur nú flugið hér á Þingeyri en auglýst hefur verið eftir verkefnastjóra fyrir verkefnið. Öll vötn til Dýrafjarðar er yfirskrift verkefnisins um Brothættar byggðir og er á vegum Byggðastofnunnar. Tíu byggðarlög á landinu hafa hlotið brautargengi til þátttöku, þar af tvö nú á þessu ári og er Þingeyri eitt þeirra. Verkefnið Brothættar byggðir var fyrst sett á laggirnar sem tilraunaverkefni árið 2012 en í ljósi góðrar reynslu hefur verkefnið nú fest sig í sessi.

Lesa áfram “Framtíð Þingeyrar – Öll vötn til Dýrafjarðar”

Sönn ástríða

Vera má að ýmsir á Þingeyri hafi séð líffræðinginn og listakonuna Megan Perra á sveimi um svæðið síðustu vikur, en hún hefur dvalið við störf í listamannadvöl á vegum Simbahallarinnar, Westfjords Residency. Þann tíma sem hún hefur verið hér hefur hún sannarlega ekki legið á liði sínu. Margir sóttu meðal annars málþing um heimskautarefinn sem hún hélt í Blábankanum um miðjan mars og nú síðustu daga hefur stór refur smám saman verið að koma sér fyrir á gafli Bjarnabúðar, en þar hefur Megan einmitt verið að störfum við að mála veglega veggmynd. Lesa áfram “Sönn ástríða”

„Það er betra að reyna hlutina og mistakast en reyna þá alls ekki.“


Teresa Cobb er ein fjölmargra sem hafa heillast af Vestfjörðum. Hún er grafískur hönnuður frá bænum Dorset sem liggur við suðurströnd Englands. Eftir að hafa rekið eigið fyrirtæki í grafískri hönnun í um 10 ár var hún orðin þreytt á að sitja daginn út og inn fyrir framan tölvuna og ákvað að breyta um umhverfi og flytja til Þingeyrar. „Ég hef alltaf verið í fastri vinnu síðan ég lauk háskólanámi. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að flytja hingað til Þingeyrar og breyta algjörlega til, yfirgefa þennan ferkantaða heim og vera opin fyrir nýrri reynslu og upplifunum.“ Lesa áfram “„Það er betra að reyna hlutina og mistakast en reyna þá alls ekki.“”

Lánatorg með samfélagslegt gildi

Hugsaðu þér ef til væri lánatorg sem væri fullkomlega í eigu viðskiptavina, sem veitti hagstæð lán með lága vexti og þú gætir hæglega verið hluti af þeirri heild og notið hagstæðra kjara. Hljómar það of gott til að vera satt?

Hjalti og Hjörvar eru forritarar og frumkvöðlar sem komu í Blábankann fyrir skemmstu til að vinna að tæknilausnum fyrir félagsvædda lánastarfsemi, verkefni sem þeir hafa nú unnið að ásamt tveimur öðrum í rúmt ár. Lesa áfram “Lánatorg með samfélagslegt gildi”

Líf og fjör á Þingeyri

Nú um stundir dvelja nokkrir listamenn á vegum Simbahallarinnar hér á Þingeyri en um árabil hefur Simbahöllin boðið listafólki að sækja um þátttöku í prógrammi á þeirra vegum þar sem listamenn sækja Þingeyri heim og vinna að verkefnum í lengri eða skemmri tíma. Að þessu sinni bættust við að auki aðrir listamenn héðan af svæðinu, Marsibil Kristjánsdóttir frá Þingeyri og forsprakkar Hússins – House of Creativity frá Patreksfirði, þau Aron Ingi Guðmundsson og Julie Gasiglia.

Blábankinn hefur við þetta tækifæri ekki látið sitt eftir liggja og opnað dyr sínar og boðið listafólkinu uppá vinnurými, en í Blábankanum hafa hér jafnframt starfað prófessor og doktorsnemi í hópfjármögnun og unnið að verkefnum sínum. Hér hefur því sannarlega verið margt um manninn. Lesa áfram “Líf og fjör á Þingeyri”

Af hugsjón og ástríðu

Árið 1989 komu saman á heimavistina á Núpi í Dýrafirði Bílddælingur og Þingeyringur. Hvort um sig staðráðið í æskuljóma sínum að fella heiminn að fótum sér, en felldu í stað hugi saman svo heitt og innilega að ekki hefur fallið úr síðan. Eins og samvaxin skopparabolti, frjáls og straumlínulaga hafa þau síðan skoppað saman í gegnum lífið og komið víða við. Marsibil Kristjánsdóttir og Elfar Logi Hannesson eru listamenn af guðs náð. Hvar sem Elfar Loga hefur borið niður hefur hann komið að uppsetningum leikrita og listrænn hugur myndlistamannsins Marsibilar skapað úr hverju sem var, hvað sem var. Lesa áfram “Af hugsjón og ástríðu”