Af lífi og sál

Að austan kom hún ung að árum í síld til Þingeyrar í Dýrafirði. Segja má að vertíðinni sé varla lokið, í það minnsta er hún hér enn og hefur síðan byggt sitt bú og buru með Kristjáni manni sínum. Alda S. Sigurðardóttir er handavinnu og hannyrðakona af lífi og sál sem vílar ekki fyrir sér að reyna sig áfram, prófa og er ekki hrædd við að mistakast.

„Jájá, ég fikta í öllu“ segir hún og hlær um leið og hún sýnir full albúm af ólíku handverki eftir hana en þar má sjá að hún hefur víða komið við. Körfugerð, útsaumur í dúka, dúkkuföt og bangsar af ýmsum gerðum. Handgerðir jóla-sveinar við ýmis störf sem og karlar og kerlingar með leirhöfuð og prjónuð föt sem hún kallar Dýrfirðinga. Að ógleymdu öllu prjónlesi og saumaskap sem hún gert í gegnum tíðina. Alda hefur mikið gert af bútasaumi en þar má nefna púða, teppi og glæsilegar veggmyndir sem hún gerir ýmist eftir hugarfluginu, eftir myndum úr bókum eða jafnvel eftir teikningum barnabarna og öðlast þá verkin þeirra nýtt líf í öðru listformi.

Alda er jafnvíg á allt sem snýr að hannyrðum en framanaf kunni hún illa við prjónaskap. Líklega var það vegna þess að prjónaskapurinn var mikið til bundinn við stöðluð skólaverkefni, en eftir skólagöngu tók Alda til við prjónana og var ekki aftur snúið enda fékk sköpunin þá loksins lausan tauminn. Alda segist prjóna allt mögulegt og þá helst eitthvað út í loftið. „Stundum byrja ég bara og læt ráðast hvað kemur út úr því. Smám saman tekur eitthvað á sig mynd en ef maður þarf að rekja upp þá gerir maður það bara!“ Alda hefur líkt og með bútasauminn einnig prjónað eftir teikningum en skemmtilegast segir hún vera að prjóna úr fínu garni. Þeir eru ófáir skírnarkjólarnir sem hún hefur prjónað en einnig ógrynni af peysum, sokkum, húfum, vettlingum í öllum stærðum, gerðum og litum.

„Maður þarf ekki að vera hræddur við liti“ segir Alda en hún hefur verið að prófað sig áfram með jurtalitun. Fleiri hér á svæðinu hafa unnið með jurtalitun en nýlega var haldið jurtalitunarnámskeiði að Gíslastöðum í Haukadal. Alda segir jurtalitun ákaflega spennandi en einnig krefjandi, „jurtir eru óútreiknanlegar, það er ekki sama á hvaða tíma þær eru teknar hvaða lit þær gefa.“ 

Á Þingeyri er stór hópur handverksfóls en Alda er ein af upphafskonum Gallerís Koltru sem er einmitt samband handverksfólks frá Dýrafirði. Koltra hófst sem uppfyllingarefni fyrir upplýsingamiðstöðina á Þingeyri en hefur starfsemi hópsins síðar undið upp á sig all rækilega og stendur nú fyllilega á eigin fótum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *